Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 93/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 29. maí 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 93/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 Málavextir eru þeir að Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda, A, með bréfi dags. 31. maí 2012, um ákvörðun sína frá 30. maí 2012 þess efnis að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til hans frá og með 30. maí 2012 í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir skv. 1. mgr. 59. gr., sbr. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 2. júlí 2010. Með bréfi frá 8. maí 2012 var kæranda tilkynnt að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur á kæranda vegna vinnu hjá B. Í bréfinu var óskað eftir skriflegum skýringum á ótilkynntum tekjum. Í framhaldinu barst stofnuninni tölvupóstur frá kæranda 15. maí 2012 þar sem hann greindi frá því að hann hefði fyllt út rafræna tilkynningu um tekjur á samskiptavettvangnum „mínar síður“ á vef Vinnumálastofnunar 29. febrúar 2012.

 Vinnumálastofnun ákvað á fundi sínum 30. maí 2012 að fella niður rétt kæranda til greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði frá ákvörðunardegi á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 35. gr. a, laga um atvinnuleysistryggingar.

 Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, móttekinni 1. júní 2012, bendir kærandi á meðfylgjandi viðhengi sem hann telur að sýni að hann hafi tilkynnt umræddar tekjur. Hafi hann hins vegar gert einhverja villu á heimasíðu Vinnumálastofnunar sé sjálfsagt að laga það.

 

 

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 29. júní 2012, vísar Vinnumálastofnun til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun vísar einnig til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar, en atvinnuleitanda beri skylda til þess að upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunni að verða á högum hans eða annað sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.Vinnumálastofnun áréttar að einnig sé mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysistrygginga í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna“.

Af þessum ákvæðum sé ljóst að hinum tryggða beri að tilkynna fyrirfram um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar. Í 35. gr. sé mælt nánar fyrir um hvernig þessi tilkynning á tilfallandi vinnu skuli fara fram. Segi þar að tilkynna skuli til Vinnumálastofnunar hina tilfallandi vinnu með að minnsta kosti eins dags fyrirvara. Heimilt sé þó að tilkynna um vinnuna samdægurs enda sé um tilvik að ræða sem sé þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki hafi verið unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skuli koma fram upplýsingar um hver vinnan sé, hvar hún fari fram og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu sé ætlað að vara. Af framangreindum lagaákvæðum megi ráða að ekki sé heimilt að tilkynna um tilfallandi vinnu eftir á enda sé ákvæðið ekki hugsað til þess að koma til móts við hlutastarf hins tryggða. Sé kærandi í föstu hlutastarfi beri honum að tilkynna það starf til stofnunarinnar. Ekki sé unnt að bera fyrir sig vankunnáttu á lögunum í þessu efni. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar sé að finna greinargóðar leiðbeiningar um tilkynningu um vinnu og að auki sé farið ítarlega yfir þær reglur á svokölluðum kynningarfundum stofnunarinnar.

 Í kjölfar samkeyrslu Vinnumálastofnunar við gagnagrunn ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur hjá kæranda frá B, fyrir febrúar, mars og apríl 2012. Vinnumálastofnun hafi í kjölfarið borist þær skýringar frá kæranda að hann hefði skráð inn tekjur sína fyrir febrúarmánuð 20. febrúar 2012 á „mínum síðum“.

Við nánari skoðun hafi komið í ljós að kærandi hafi skráð tekjur sínar vegna starfs síns fyrir B á „mínum síðum“, en honum hafi láðst að senda tilkynninguna inn með fullnægjandi hætti. Þetta útskýrist af því að atvinnuleitandi sem hyggist senda stofnuninni tilkynningu um tekjur með þessum hætti sé mögulegt að setja inn færslu um tekjur án þess að senda hana formlega til stofnunarinnar, vistist þá upplýsingarnar og geti viðkomandi skoðað færsluna síðar. Dagsetning slíkrar færslu komi hvergi fram.

Líkt og leiðbeiningar með tilkynningunni gefi til kynna þurfi að smella á takkann „senda tilkynningu um tekjur“ þegar útfyllingu sé lokið. Þar sem kærandi hafi ekki klárað gerð sína með fullnægjandi hætti hafi tilkynning þar af leiðandi ekki borist til Vinnumálastofnunar.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að það sé ekki loku fyrir það skotið að kærandi hafi skráð inn tekjuliðina eftir að honum hafi borist bréf Vinnumálastofnunar sem honum hafi verið sent 8. maí 2012, þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um ótilkynntar tekjur. Hafi hins vegar kærandi í umrætt sinn af vankunnáttu eða vegna misskilnings skráð inn tekjuliði án þess að senda upplýsingarnar til stofnunarinnar með fullnægjandi hætti þá sé það enn fremur mat Vinnumálastofnunar að misskilningur sá sem varð geti ekki verið rakinn til stofnunarinnar. Það sé á ábyrgð atvinnuleitanda að ganga úr skugga um að upplýsingar sem ætlaðar séu stofnuninni fari réttu boðleiðina.

Það sé niðurstaða Vinnumálastofnunar að þar sem kærandi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sem hvíli á honum að tilkynna réttilega vinnu til stofnunarinnar sæti hann viðurlögum í formi tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. júlí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 17. júlí 2012. Kærandi sendi frekari athugasemdir með tölvupósti 16. júlí 2012.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 22. gr. laga nr. 134/2009 og 3. gr. laga nr. 153/2010, en hún er svohljóðandi:

Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þetta ákvæði þarf meðal annars að túlka með hliðsjón af því að skv. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 134/2009, skal sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.

Auk þess þarf að túlka framangreint ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með hliðsjón af 2. mgr. 14. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti skv. 1. mgr., án ástæðulausrar tafar.

Loks ber að vísa til 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar sem er svohljóðandi:

Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.

Kærandi starfaði B í febrúar, mars og apríl 2012 á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Hann kveðst hafa gert tilraun til þess að tilkynna þá vinnu á „mínum síðum“ hjá Vinnumálastofnun. Sú tilkynning barst stofnuninni ekki þannig að svo virðist sem kæranda hafi mistekist að tilkynna vinnuna rafrænt með fullnægjandi hætti. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið var það á ábyrgð kæranda að koma upplýsingum um vinnu sína til Vinnumálastofnunar. Tilkynning um vinnuna barst ekki og er ákvörðun Vinnumálastofnunar því, með vísan til framangreinds, staðfest.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.

      

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

            Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum